Skárra að fara með sigur í Herjólf

Eyjamaðurinn Agnar Smári Jónsson var skiljanlega kampakátur eftir ótrúlegan sigur ÍBV á Stjörnunni, 22:21, í Olís-deild karla í handknattleik í dag. Eyjamenn voru sex mörkum undir í hálfleik þar sem þeir skoruðu einungis sjö mörk en endurkoman var frábær eftir hlé.

„Þetta var skandall í fyrri hálfleik þar sem enginn var mættur til leiks og við vorum heppnir að vera bara sex mörkum undir í hálfleik. Við tókum góða ræðu í hálfleik þar sem við töluðum um að komast hægt og rólega inn í þetta aftur og þá kemur stemningin,“ sagði Agnar við mbl.is, en sagði þó ekki hafa verið messað sérstaklega yfir mönnum í leikhléi.

„Engin þrumuræða, ég veit ekki hvort það virki þó menn létu heyra í sér. Það var bara rætt um hugarfarið, enga taktík. Menn verða pirraðir þegar enginn haus er til staðar og þetta var bara skandall í fyrri hálfleik,“ sagði Agnar og sá fram á aðeins bærilegri ferð aftur til Eyja í kvöld.

„Við förum beint í Herjólf núna í einhverja þrjá, fjóra tíma. Það er skárra að fara í það með sigur á bakinu heldur en tap,“ sagði Agnar Smári, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert