Sjö varin víti Lárusar ekki nóg

Tryggvi Þór Tryggvason, HK, og Ísak Rafnsson, FH.
Tryggvi Þór Tryggvason, HK, og Ísak Rafnsson, FH. mbl.is/Ómar

FH sigraði HK, 25:22, í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olís-deildinni, í Digranesi í Kópavogi í kvöld.

Lárus Helgi Ólafsson átti sannkallaðan stórleik í marki HK. Hann varði 7 vítaköst og samtals á þriðja tug skota en það var ekki nóg fyrir Kópavogsliðið. HK var yfir í hálfleik, 14:12, en FH náði yfirhöndinni á upphafsmínútum síðari hálfleiks og hélt forystunni til leiksloka.

HK situr áfram á botni deildarinnar með aðeins 4 stig eftir 14 leiki en FH er komið með 18 stig í fjórða sæti deildarinnar.

Mörk HK: Þorgrímur Smári Ólafsson 5, Leó Snær Pétursson 4, Andri Þór Helgason 4, Garðar Svansson 3, Guðni Már Kristinsson 3, Valdimar Sigurðsson 2, Aron Gauti Óskarsson 1.

Mörk FH: Andri Berg Haraldsson 5, Daníel Matthíasson 5, Magnús Óli Magnússon 5, Ísak Rafnsson 4, Benedikt R. Kristinsson 2, Ragnar Jóhannsson 2, Hlynur Bjarnason 1, Andri Hrafn Hallsson 1.

Bein útsending frá leiknum.

20.58 - Leik lokið, 22:25. FH innbyrðir tvö stig eftir harðan slag lengi vel.

20.57 - Sigur FH er í höfn. Hraðaupphlaup og mark, 21:25, þegar ein mínúta er eftir.

20.55 - Tvær mínútur eftir og HK minnkar muninn í 20:23 en FH svarar strax, 20:24. HK strax aftur, 21:24.

20.51 - Ekkert skorað í langan tíma. Staðan enn 19:22 og 5 mínútur eftir. HK tekur leikhlé.

20.45 - Lárus Helgi Ólafsson í marki HK ver sitt sjöunda  vítakast í kvöld. En HK virðist ekki ætla að nýta sér það. Staðan er 19:22 og átta mínútur eftir.

20.42 - FH er að síga framúr, staðan er 18:21 og tólf mínútur eftir.

20.40 - Nú er það Ágúst Elí Björgvinsson í marki FH sem tekur sig til og ver vítakast. Kemur í veg fyrir að HK jafni metin. FH fær strax vítakast og skorar loksins, 17:19.

20.38 - Seinni hálfleikur hálfnaður, staðan er 17:18 en Lárus Helgi Ólafsson í marki HK var að verja sitt sjötta vítakast í kvöld, nú frá Ragnari Jóhannssyni!

20.32 - Ellefu mínútur búnar af seinni hálfleik og staðan er 16:18. HK náði loks að svara með marki Þorgríms Ólafssonar úr vítakasti eftir fjögur mörk í röð.

20.28 - HK-ingar eru í vandræðum þessar mínúturnar og búnir að missa þrjá menn af velli á stuttum tíma. FH nýtir sér það strax og kemst yfir í fyrsta sinn í seinni hálfleik, 15:16.

20.26 - FH jafnar metin í 15:15, tveimur mönnum fleiri, þegar 7 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik.

20.22 - Fjórar mínútur búnar af seinni hálfleik og HK er yfir, 15:14. Lárus er búinn að verja eitt vítakast á upphafsmínútunum og þar með fjögur alls í leiknum!

20.12 - Hálfleikur í Digranesi og HK er óvænt með forystu gegn FH, 14:12. Lárus Ólafsson hefur átt stórleik í marki Kópavogsliðsins.

20.04 - HK komst tveimur mörkum yfir, FH hefur minnkað muninn í 12:11 eftir 27 mínútur. Bjarki Sigurðsson þjálfari HK tekur leikhlé.

19.59 - HK nær forystunni, 11:10, eftir 23 mínútna leik, og FH missir Ragnar Jóhannsson af velli í tvær mínútur um leið.

19.56 - Áfram jafnt í Digranesi og staðan 10:10 eftir 21 mínútur.

19.52 - HK gefur sig ekki og jafnar metin í 9:9 eftir 19 mínútur. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH tekur leikhlé til að hrista upp í sínum mönnum.

19.50 - FH sígur framúr á ný og staðan er 7:9 eftir 17 mínútur.

19.45 - HK jafnar metin og staðan er 4:4 eftir 12 mínútur.

19.44 - Staðan eftir 10 mínútur er 2:3 og Lárus Ólafsson í marki HK hefur varið tvö vítaköst FH-inga.

19.37 - Staðan eftir 5 mínútur er 1:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert