Tveir úr leik vegna höfuðhögga

Ísak Rafnsson lætur skotið ríða af en til varnar eru …
Ísak Rafnsson lætur skotið ríða af en til varnar eru Matthías Árni Ingimarsson og Þröstur Þráinsson. mbl.is/Golli

Nokkur afföll eru í leikmannahópum FH og Hauka fyrir Hafnarfjarðarslaginn í Olís-deild karla sem fram fer í Kaplakrika í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

FH verður án bæði Benedikts Reynis Kristinssonar og Ísaks Rafnssonar sem meiddust í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins á síðasta laugardag. Benedikt sneri sig á ökkla en Ísak fékk höfuðhögg og heilahristing. Eins áður hefur komið fram er óvíst hvenær Ísak mætir til leiks á nýjan leik en vonir standa til að Benedikt missi ekki af nema tveimur leikjum með FH-liðinu.

Adam Haukur Baumruk leikur ekki með Hauka-liðinu í leiknum en hann er eins og Ísak að jafna sig eftir höfuðhögg í kappleik. Adam rakst á Örn Inga Bjarkason í viðureign Hauka og Aftureldingar fyrir hálfum mánuði.

Elías Már Halldórsson kemur inn í lið Hauka en hann var ekki gjaldgengur í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins þar sem hann lék með Akureyri í keppninni fyrir áramót.

Tveir fyrri leikir FH og Hauka á leiktíðinni hafa verið jafnir og skemmtilegir. FH vann með eins marks mun á heimavelli í september, 25:24. Liðin skildu jöfn, 22:22, í Schenkerhöllinni í nóvember.

Aðgangur verður ókeypis í Kaplakrika í kvöld meðan húsrúm leyfir í boð Rio Tinto Alcan.

Nýkrýndir bikarmeistarar ÍBV og ríkjandi Íslandsmeistarar mæta galvaskir í Vodafonhöllina og reyna sig við Valsmenn á sama tíma og leikurinn í Hafnarfirði fer fram.

ÍR, sem er í þriðja sæti deildarinnar, fær botnlið HK í heimsókn í Austurbergið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert