Erum bestir á fjórtándu hæð

„Ég held að við séum komnir á bak við vegginn. Staðan okkar er erfið gegn góðu liði Hauka," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir að lið hans tapaði öðru sinni í undanúrslitarimmunni við Hauka í dag, 21:19. Hauka hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki liðanna og þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér sæti í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn.

„Að þessu sinni var þetta hinsvegar leikur af okkar hálfu, allt annað en á fimmtudaginn. Við vorum betri í fyrri hálfleik og áttum að fara inn í hálfleikinn með tveggja til þriggja marka forskot sem því miður tókst ekki," sagði Óskar.

„Okkur vantar meira jafnvægi í liðið. Annaðhvort eru menn niðri í kjallara eða upp á efstu hæð. Við erum bestir á miðjunni, á fjórtándu hæðinni.

„Við gáfum síðan aðeins eftir í síðari hálfleik og Haukarnir voru kannski klókari. En varnarleikurinn var góður hjá okkur og baráttan og hugarfarið allt annað en í fyrsta leiknum,“ sagði Óskar Bjarni sem alls ekki hefur lagt árar í bát þrátt fyrir að horfurnar séu ekki góðar. Hann segir að nokkrir leikmanna sinna eigi enn talsvert inni, ekki síst í sóknarleiknum. Nefnir hann sérstaklega Guðmund Hólmar Helgason og Elvar Friðriksson.

„Við ætlum að vinna á þriðjudaginn. Sigur í þeim leik opnar þetta einvígi,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.

Nánar er rætt við Óskar Bjarna á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert