Hafa ekki lagt árar í bát

„Það var viðbúið að staðan gæti orðið þessu eftir þrjá leiki en við höfum síður en svo lagt árar í bát og erum fullir eftirvæntingar yfir að komast í leikinn á fimmtudaginn," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir tap fyrir ÍR, 34:28, í þriðja undanúrslitaleiknum við ÍR í Olís-deild karla í handknattleik að Varmá í kvöld. ÍR hefur þar með tvo vinninga gegn einum í rimmu liðanna og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn.

Einar Andri segir að fyrsta og fremst hafi varnarleikur Aftureldingar bilað í kvöld og fyrir vikið hafi markvarslan ekki verið eins góð og vænta mátti. Þá hafi liðið farið illa að ráði sínu í fyrri hálfleik í sókninni þegar það var með yfirhöndina í leiknum og gat bætt við forskot sitt. 

„Í seinni hálfleik þá var um sambland að ræða þar sem við fórum illa að ráði okkar í opnum færum auk þess sem agaleysi varð okkur að falli. Menn flýttu sér of mikið auk þess sem varnarleikurinn var aldrei eins góður og við viljum hafa hann," sagði Einar Andri sem var eðlilega vonsvikinn.

Einar segir það liggja fyrir að Jóhann Gunnar Einarsson verði ekki með Aftureldingu á fimmtudaginn í fjórða leik ÍR og Aftureldingar. Hann sé enn frá vegna meiðsla.

Nánar er rætt við Einar Andra á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert