Ég er vanur þessu

„Ég er vanur þessu en því fylgir pressa og ég fann fyrir fiðringi í maganum en það er partur af þessu," sagði Sigurður Guðjónsson, leikmaður Fjölnis sem tryggði liðinu sigur á Víkingi, 21:19, í umspilsleik um sæti í Olís-deild karla í handknattleik í Víkinni í dag. Sigurður tók vítakast þegar 17 sekúndur voru til leiksloka en brást bogalistinn en náði frákastinu og tókst þá að koma boltanum framhjá Magnúsi Erlendssyni markverði Víkinga. 

„Úr því að ég náði frákastinu og skoraði þá var allt í lagi," sagði Sigurður glaður í bragði. „Hugsunin var bara að ná frákstinu og skora. Það var frábært að skora og sigurinn var góður, frábær sigur," sagði Sigurður sem nú fer að búa að sig undir fjórða leikinn við Víkinga sem fram fer á heimavelli á þriðjudagskvöldið, Dalhúsum í Grafarvogi. 

„Við ætlum að vinna á þriðjudaginn og fá oddleik," sagði Sigurður Guðjónsson, leikmaður Fjölnis. 

Nánar er rætt við Sigurð á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert