Pumpan þakkar gjörsamlega fyrir sig

„Ég var þokkalega rólegur í þessum leik, mér leið vel fyrir leik og fannst strákarnir vera tilbúnir  og mjög yfirvegaðir. Mér leið verr fyrir síðasta leik en auðvitað þakkar pumpan gjörsamlega fyrir sig, hún er á síðustu metrunum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Víkinga eftir 26:19 sigur liðsins á Fjölni í oddaleik þeirra um sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik.

„Ég er mjög ánægður, við erum búnir að spila heilt yfir allan veturinn gríðarlega vel. Við erum búnir að eiga mjög flott og gott einvígi hérna á móti Fjölni sem hefur gríðarlega gott lið og hefur staðið sig frábærlega í vetur,“ sagði Ágúst.

Það var vörnin sem skilaði sigrinum á móti Fjölni í kvöld að mati Ágústs en Magnús Þór Erlendsson fór einnig á kostum í þeirra lið og varði 30 skot.

„Varnarleikurinn (skilaði þessu), við klipptum út Kristján (Örn Kristjánsson) og fórum í 5:1 vörn og tókum hann út. Við höfum ekkert spilað þetta í vetur en það gekk vel núna. Maggi var að fá svona frekar auðveldari skot á sig og kláraði það vel,“ sagði Ágúst.

Nánar er rætt við Ágúst í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert