Aron samdi við Álaborg - í samkeppni við Palicka

Aron Rafn í búningi Álaborgar.
Aron Rafn í búningi Álaborgar. Ljósmynd/aalborghaandbold.dk

Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik er á leið til danska úrvalsdeildarfélagsins Álaborgar en hann hefur samið við félagið til eins árs.

Aron mun fá harða samkeppni um markvarðarstöðuna en markvörður Kiel til fjölmargra ára, Svíinn Andreas Palicka, er einnig á leið til félagsins en með því leikur einnig Íslendingurinn Ólafur Gústafsson.

Aron hefur æfingar 20. júlí með Álaborg en liðið lenti í 2. sæti í dönsku úrvalsdeildinni og er um þessar mundir að spila um 3 sætið í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn.

„Ég er búinn að semja við Álaborg. Þetta er eins árs samningur og þetta verður vonandi ánægjulegt eitt ár,“ sagði Aron í samtali við mbl.is í dag en spurður um það hvort hann myndi ekki vilja vera lengur var svarið skýrt.

„Jú kárlega, ef það verður í boði þá er ég alveg tilbúinn að vera hérna lengur en til að byrja með verður þetta eitt ár og við sjáum hvað skeður,“ sagði Aron.

Aroni lýst vel á félagið sem er eitt af þeim bestu í Danmörku.

„Þetta er topplið í Danmörku með góða leikmenn og stórt skref upp á við fyrir mig að fara úr toppliði í sænsku deildinni í dönsku deildina. Það er jákvætt skref,“ sagði Aron.

Samkeppnin við Palicka um byrjunarliðssætið verður hörð en Aron hefur fulla trú á því að hann geti barist um sætið.

„Hann er kannski meira númer eitt en það er bara mitt að sanna að ég sé betri en hann. Palicka er búinn að vinna þýsku deildina margoft og kemur með mikla reynslu. Hann hefur kannski ekki verið mikið markvörður númer eitt síðustu ár, kannski fer hann bara í gamla horfið og vill vera varamarkvörður,“ sagði Aron.

Aron Rafn Eðvarðsson.
Aron Rafn Eðvarðsson. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert