Unnið eftir grunngildunum

Íslensku landsliðsmennirnir verjast aukakasti Svartfellinga í leiknum í gær.
Íslensku landsliðsmennirnir verjast aukakasti Svartfellinga í leiknum í gær. mbl.is/Eggert

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, var í sjöunda himni eftir sigurinn stóra á Svartfellingum í Laugardalshöll í gær, 34:22. „Það var alveg sama hvar var litið á leik okkar. Frammistaðan var mjög heilsteypt og lýsir afar vel því ástandi sem er á liðinu um þessar mundir. Stemningin er afar góð og samheldnin mikil og allir leikmenn tilbúnir að gefa af sér,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið en augljóst var að þungu fargi var af honum létt.

„Eftir mjög góða frammistöðu á EM í Danmörku í ársbyrjun í fyrra þá lendum við í erfiðleikum sem skrifa má á reikning þreytu og vanmats sem olli okkur erfiðleikum í leikjunum við Bosníu fyrir ári. Sú staðreynd var okkur erfið og fyrir vikið vorum við aldrei í jafnvægi á heimsmeistaramótinu í Katar í janúar þar sem allan stöðugleika vantaði hjá okkur.

Upp úr þessu höfum við unnið okkur með þeim grunngildum sem íslenska landsliðið hefur staðið fyrir sem eru vinnusemi, fórnfýsi og samheldni. Fyrir vikið hefur landsliðið leikið miklu betur í síðustu leikjum en um langt skeið. Ég fann það strax og undirbúningur hófst fyrir leikina við Serba í lok apríl að allir leikmenn voru á leið í sömu áttina. Sama var upp á teningnum núna fyrir leikina í við Ísrael og Svartfjallaland og það skilaði sér inni á leikvellinum. Þar af leiðandi getum við allir farið glaðir í sumarfrí,“ sagði Aron.

Sjá nánar umfjöllun um landsleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert