Ansi góður sunnudagsbíltúr

Ingimundur Ingimundarson.
Ingimundur Ingimundarson. Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta eru bara tveir leikir, en við erum að færa okkur í rétta átt og þegar kemur meira sjálfstraust í menn þá ganga hlutirnir betur,“ sagði reynsluboltinn Ingimundur Ingimundarson hjá Akureyri í samtali við mbl.is eftir stórsigur á Víkingi, 30:21, í Olís-deild karla í handknattleik í dag.

Akureyri vann sinn fyrsta leik í síðustu umferð, en fyrir leikinn í dag voru bæði lið aðeins með einn sigur á bakinu og hafa eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar að ná öðrum gegn liði í sama pakka.

„Við förum í alla leiki til þess að vinna þá, sama hvaða lið um er að ræða enda eru alltaf tvö stig í pottinum og það þarf að safna þeim. En þetta er gott skref í rétta átt þó við höfum verið þungir í fyrri hálfleik, en vorum þéttir í seinni hálfleik þar sem flæðið var mun betra,“ sagði Diddi, en taka má undir það. Liðið var einu marki yfir í hálfleik en fór að lokum með níu marka mun. Eitthvað sem gefur aukið sjálfstraust.

„Já vonandi og við ætlum svo sannarlega að bæta við fleiri sigrum. Við erum að byggja á okkar vörn og markvörslu og strákarnir sem eru að fá stærra hlutverk í ár eru hægt og rólega að koma sterkari inn í þetta,“ sagði Diddi, en mikil samskipti voru á milli bekkjanna í leikjum þar sem dómgæslan virtist þvælast fyrir mönnum.

„Við vorum ekki að rífast, allavega ekki ég. Kannski voru aðrir að rífast í Gústa [þjálfara Víkings], en ég held það sé ekki hægt að kenna dómgæslunni um þó það hafi verið hart tekist á. Menn eru oft æstir í smá tíma og sjá svo að sér,“ sagði Diddi.

Við skulum bara kalla þetta heimferð

Sem fyrr segir var þetta annar sigur Akureyrar í röð og minntist blaðamaður á það að eflaust yrði rútuferðin nú bærilegri aftur norður þegar hlutirnir eru farnir að líta betur út.

„Ef það væri rútuferð, það væri æðislegt. Og enn betra ef það væri flug, en við skulum bara kalla þetta heimferð. Ég gef ekkert meira upp,“ sagði Diddi og hló, en hafði vakið forvitni blaðamanns sem gekk frekar á hann um fararmáta Akureyringa.

„Við förum allavega heim á fjórum hjólum, þú mátt túlka það eins og þú vilt. En nei, við erum á fólksbílum frá traustum stuðningsaðilum fyrir norðan. Þetta er ansi góður sunnudagsbíltúr,“ sagði Diddi og hló í samtali við mbl.is.

Ingimundur Ingimundarson.
Ingimundur Ingimundarson. Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert