Spilaðist eins og við vildum í lokin

„Við lékum vel í 45 mínútur eins og gegn Val í síðustu umferð," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir að liðið vann nauman sigur, 24:23, á Haukum í hörkuleika í N1-höllinni að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik. 

„Mér fannst sóknarleikurinn okkar frábær í fyrri hálfleik. Menn skutu vel á markið og það má segja að þetta hafi verið besti leikurinn hjá útilínunni okkar hvað varðar skotin," sagði Einar Andri og bætti við að talsverðar þreytu hafi orðið vart hjá leikmönnum Aftureldingar þegar á leikinn leið. „Ég var ekki nógu duglegur að dreifa álaginu milli leikmanna framan af leiknum."

Einar Andri var ekki sammála því að það hafi verið mistök að bakka úr 5/1 vörn niður flata 6/0 þegar kom fram í síðari hálfleikinn. „Haukar voru búnir að opna vörn okkar þrisvar sinnum í röð á vinstri vængnum og þar af leiðandi breitti ég vörninni. Við hefðum kannski frekar átt að fara í 3/2/1 vörn en 6/0," sagði Einar.

Sigur Aftureldingar var naumur. Sigurmarkið skoraði Birkir Benediktsson þremur sekúndum fyrir leikslok eftir að stillt var upp í leikkerfi að loknu leikhléi. Áður hafði Tjörvi Þorgeirsson, Haukamaður, skotið boltanum í markslá Aftureldingar 12 sekúndum fyrir leikslok. „Það sem vildum gera í lokin spilaðist alveg upp í hendurnar á okkur en við vorum með fleiri möguleika í stöðunni ef Haukar hefði brugðist öðru vísi við en þeir gerðu," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.

Nánar er rætt við Einar Andra á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert