Fór fallega að Ólafi

„Ég fór fallega að honum og fann að það var löngun fyrir hendi," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, spurður hvernig honum hafi tekist að fá Ólaf Stefánsson til þess að draga fram keppnisskóna og leika með Valsliðinu gegn Akureyri í gær í Olís-deild karla í handknattleik.

Óskar sagði að Ólafur hafi æft með Valsliðinu upp á síðkastið þar sem örvhentu leikmenn Valsliðsins séu meiddir, þeir Geir Guðmundsson og Ómar Ingi Magnússon. Ólafur hafi hinsvegar enn verið félagsbundinn KIF Kolding í Danmörku eftir að hann lék með liðinu tvo leiki í Meistaradeild Evrópu fyrr á þessu ári. Unnið hafi verið í fá félagaskipti fyrir Ólaf í vikunni og síðan hafi það verið sett í hans hendur hvort hann vildi leika með liðinu, þó ekki væri nema einn leik. 

„Það hafði gengið vel hjá Ólafi á æfingum. Hann er kannski ekki fastasti skotmaður deildarinnar en klárlega einn besti leikmaðurinn. Það eru forréttindi fyrir mig, strákana í liðinu, Val og hreinlega þjóðina alla að Ólafur taki fram skóna á nýjan leik, þó ekki væri nema einu sinni. Ég hélt bara að ég myndi aldrei ná honum í Valsbúninginn á nýjan leik," sagði Óskar Bjarni en Ólafur lék síðast með Val opinberan kappleik á Íslandsmóti vorið 1996. 

Tveir leikmenn Valsliðsins í gær gegn Akureyri, Ýmir Örn Gíslason og Markús Björnsson, voru ekki fæddir þegar Ólafur lék síðast fyrir Val. 

„Hann kann þetta ennþá," sagði Óskar Bjarni og bætti við. „Ég hugsa að Ólafur sé alveg til í að leika fleiri leiki með okkur."

Nánar er rætt við Óskar Bjarna á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert