Auðveldara að vera vinir af Nesinu

Daði Laxdal Gautason skoraði sjö mörk í kvöld.
Daði Laxdal Gautason skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Golli

„Það var eiginlega fáránlegt að þetta skyldi verða „leikur“ í lokin,“ sagði Daði Laxdal Gautason, skytta Gróttu, sem skoraði sjö mörk í sigrinum á Víkingi í kvöld, 25:24, í Olísdeildinni í handknattleik.

Grótta komst í 20:12 en á rétt rúmum tíu mínútum var munurinn kominn niður í eitt mark, og enn tíu mínútur til stefnu.

„Við byrjuðum vel í leiknum og vorum alltaf með forskotið, en þeir enduðu fyrri hálfleik vel og minnkuðu muninn í tvö mörk. Við ákváðum að byrja seinni hálfleik af krafti, og náðum að gera það, en í raun hægðum við svo allt of mikið á okkur og vorum farnir að verja forystuna. Það er gryfjan sem við duttum í,“ sagði Daði.

„Þeir byrjuðu að fá hraðaupphlaup, sín fyrstu í leiknum, og við fórum að klikka á dauðafærum. Við vorum ekki svona lélegir, þetta var líka spurning um heppni og óheppni. Það er gaman að þetta skyldi verða svona spennandi, eftir á að hyggja, en þetta var allt of spennandi,“ bætti hann við. Daði var þó aldrei farinn að óttast það versta, en Víkingi tókst aldrei að jafna metin:

„Mér fannst við alltaf vera að fara að vinna þennan leik. Fyrri leikurinn gegn þeim var svipaður, þar sem við höfðum yfirhöndina allan leikinn en misstum þá svo fram úr í lokin. Ég var alveg staðráðinn í að láta það ekki gerast aftur,“ sagði Daði.

Grótta er nú með 10 stig í 6. sæti deildarinnar, en Víkingar enn með aðeins tvö stig. Það virðist talsverður munur á þessum liðum, sem komu bæði upp úr 1. deild í ár, en í hverju ætli hann felist?

„Þeir eru með svo marga nýja menn að það er kannski erfiðara að búa til réttan liðsanda þar. Við höfum allir þekkst síðan við vorum sex ára að byrja í handbolta, fyrir utan fáeina eins og Guðna og Lárus Helga markvörð, og það hjálpar mikið að vera allir vinir af Nesinu. Þetta er mikið auðveldara þannig,“ sagði Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert