Gott að sækja í reynslubankann

„Munurinn lá í því að við fengum tvær til þrjár markvörslur í röð sem skiluðu sér í hraðaupphlaupsmörkum. Þá náðum við tveggja til þriggja marka forystu sem okkur tókst að halda út leikinn," sagði Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Aftureldingar eftir að liðið vann Val, 25:22, í Valshöllinni í kvöld í fyrsta undanúrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. 

„Munurinn var lítill á liðunum í leiknum og er alveg hreint ótrúlega lítill í úrslitaleikjunum til þessa. Sem betur fer þá hafa hlutirnir fallið með okkur undir lokin, bæði núna og eins gegn FH í átta liða úrslitum. Við erum að gera eitthvað rétt úr því að þetta er detta með okkur. Þar af leiðandi erum við nokkuð sáttir um þessar mundir," sagði Jóhann Gunnar ennfremur en hann lék stórt hlutverk í sóknarleik Aftureldingar að þessu sinni eins og stundum áður. Jóhann skoraði fimm mörk og átti margar stoðsendingar. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að stela sigri á útivelli en það er ekkert í höfn ennþá. Ég er viss um að viðureignirnar sem framundan eru verði jafnar og skemmtilegar," sagði Jóhann. 

Næsti leikur Aftureldingar og Vals verður á mánudagskvöldið að Varmá í Mosfellsbæ. Jóhann stuttan tíma líði milli leikja og því mikilvægt að hugsa vel um sig. „Álagið er mikið og menn verða að gæta vel að sér. En það má fara langt á viljanum. Ég er hress og kátur þótt ég hafi verið orðinn mjög þreyttur þegar á leikinn leið. Þá er gott að sækja í reynslubankann," sagði Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Aftureldingar. 

Nánar er rætt við Jóhann Gunnar á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert