Megum ekki leyfa okkur þetta

Þórhildur Gunnarsdóttir komin í dauðafæri á línunni gegn Karen Helgu …
Þórhildur Gunnarsdóttir komin í dauðafæri á línunni gegn Karen Helgu og félögum í vörn Hauka. mbl.is/Þórður Arnar

„Þetta var alls ekki nógu gott og við eigum að gera betur en þetta. Við förum samt fullar sjálfstrausts í fimmta leikinn,“ sagði Karen Helga Díönudóttir, fyrirliði Hauka, eftir tapið gegn Stjörnunni í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta í kvöld.

Staðan í einvíginu er 2:2 og liðin mætast í oddaleik að Ásvöllum á mánudagskvöld. Stjarnan komst í 15:9 í fyrri hálfleik í kvöld en Haukar voru nálægt því að jafna metin undir lok leiksins sem endaði 24:23.

„Þetta endurspeglaði leik tvö sem var líka hér í Garðabænum. Ég var samt ánægð með að við skyldum koma tilbaka í seinni hálfleik og vonandi tökum við það með okkur í fimmta leikinn,“ sagði Karen Helga, sem segir það ekki hafa truflað hugarfar leikmanna að vita af því að Haukar ættu heimaleik á mánudaginn til vara ef þær töpuðu í kvöld:

„Hver einasti leikur er úrslitaleikur í okkar huga. Maður getur bara átt sína slæmu leiki. Í dag tókum við vitlausar ákvarðanir sóknarlega og vorum ekki nógu grimmar varnarlega, og þá eigum við ekki séns. Við hleyptum þeim inn á sjö metra og sex metra, og vorum ekkert að hjálpa Elínu [Jónu Þorsteinsdóttur, markverði]. Elín er heimsklassamarkvörður þegar við stöndum vel en annars er þetta erfitt. Að við skulum fá á okkur 15 mörk í fyrri hálfleik er eitthvað sem við megum ekki leyfa okkur,“ sagði Karen Helga, sem sagði engan pirra sig á því að Maria Pereira, sem skoraði 10 mörk í kvöld, hefði fengið dæmdan á sig ruðning í lokasókn Hauka þar sem liðið átti möguleika á að jafna metin.

„Alls ekki. Leikir ráðast ekki af því sem gerist akkúrat á síðustu sekúndunni. Við fórum með þetta í fyrri hálfleik. Við ákváðum samt inni í klefa að gera allt sem við gætum til að minnka bilið, og við gerðum það, og tökum það með í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert