Mættum eins grenjandi ljón

„Það var ekki nokkur maður tilbúinn að fara í sumarfrí, hvorki við sem vorum inni á leikvellinum né okkar frábæru stuðningsmenn," sagði Gunnar Malmquist Þórsson, sem fór á kostum í vörn Aftureldingar þegar liðið burstaði Valsmenn, 29:16, í fjórða undanúrslitaleik liðanna á Íslandsmóti karla í handknattleik að Varmá í dag.

„Við uppskárum eins og við sáðum til að þessu sinni. Við fórum vel yfir okkar mál eftir rassskellinn á fimmtudagskvöldið. Það var núllstillt hjá okkur og byrjað upp á nýtt. Við mættum eins grenjandi ljón. Ég hef aldrei heldur séð annan eins stuðning frá áhorfendum og að þessu sinni," sagði Gunnar sem var vitanlega í sjöunda himni yfir að fá oddaleik við Val á þriðjudagskvöldið.

„Við vorum í oddaleikjum fyrir ári og höfum þar af leiðandi góða reynslu. Við ætlum að mæta dýrvitlausir á þriðjudaginn í Valshöllina eins og við gerðum að þessu sinni," sagði Gunnar.

Nánar er rætt við Gunnar á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka