Sýndi Írum í tvo heimana

Sigurvegarinn vígreifur á mótinu og ljóst að nafn Kristjáns Páls …
Sigurvegarinn vígreifur á mótinu og ljóst að nafn Kristjáns Páls Árnasonar mun lengi uppi verða á Norður-Írlandi, ef til vill telja þarlendir hann blótrisa á borð við þann sem lagði Kormák Ögmundarson að velli í einni elstu Íslendingasögunni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er sami mótshaldari og heldur keppnina Sterkasti maður heims,“ segir Kristján Páll Árnason aflraunamaður í samtali við mbl.is en hann náði þeim árangri um þarsíðustu helgi að fara með sigur af hólmi í keppninni Log and Deadlift Championship 2024 í Londonderry á Norður-Írlandi.

Á mótinu er keppt í drumbalyftu, sem er log-hlutinn, og réttstöðulyftu auk fjögurra annarra greina þar sem keppendum býðst að reyna við landsmetið í sínu heimalandi en Kristján átti hreinan stórleik í réttstöðunni þar sem hann hóf 350 kílógrömm frá jörðu og fékk þar skráð nýtt Íslandsmet í -105 kg flokki.

„Ég ákvað bara að skella mér þegar ég sá að þetta mót var í boði,“ segir Kristján, spurður út í aðdragandann en hann á að baki feril hvort tveggja í Sterkasta manni heims og Sterkasta manni Evrópu og átti því greiða leið inn á mótið á Norður-Írlandi. Í raun rann hann þar inn eins og bráðið smjör.

320 reyndist létt

„Þarna var 31 keppandi frá öllum heimshornum, þeir sem eiga mótið eru breskir held ég en Sterkasti maður heims er samt alltaf haldið í Bandaríkjunum,“ segir Kristján og heldur áfram frásögn sinni af mótinu.

Kristján vel hrikalegur, rauður og þrútinn í efstu stöðu í …
Kristján vel hrikalegur, rauður og þrútinn í efstu stöðu í réttstöðunni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fór þarna með það í huga að reyna við Íslandsmetið í -105 kg flokki í atlantssteini en eftir fyrstu lyftuna í réttstöðunni, þar sem ég tók 320 kíló létt, sem var mjög létt, ákvað ég að reyna að fá óopinbera Íslandsmetið mitt, sem var 350 kíló, skráð,“ segir hann frá en áður en að réttstöðunni kom hafði hann lyft 141 kílógrammi í drumbalyftunni sem svipar til ólympískra lyftinga, þar þurfa þátttakendur að lyfta drumbinum upp fyrir höfuð á meðan þeir standa jafnfætis.

Hann reif upp 350 í réttstöðulyftu og viti menn, „þá kom í ljós að ég var kominn í fyrsta sæti á mótinu með þeirri lyftu og drumbalyftunni, þar ræður hver á hæstu samanlögðu þyngd í þessum greinum“, útskýrir Kristján en sá sem hafnaði í öðru sæti lyfti sömu þyngd og Kristján en vigtaðist þyngri og taldist Íslendingurinn því, sem léttari keppandi, hafa borið sigur úr býtum.

„Þetta mót gefur mér mikið“

„Eftir þetta voru tekin nokkur heimsmet og landsmet í aukagreinunum sem voru sirkushandlóð, þá lyftir maður lóði upp fyrir höfuð með annarri hendi, öxull, sem einnig gengur út á að lyfta upp fyrir höfuð, bóndaganga, sem gengur út á að ganga með hlass í hvorri hendi, og atlantssteinum sem var síðasta greinin, þar þarf að lyfta alveg kringlóttum steinum,“ segir Kristján frá.

Drumbalyftan reyndist Íslendingnum lítil áskorun og hóf hann 141 kg …
Drumbalyftan reyndist Íslendingnum lítil áskorun og hóf hann 141 kg upp fyrir höfuð sem vatn væri drukkið. Ljósmynd/Aðsend

Hann ætlaði sér að setja Íslandsmet í síðustu greininni en þvarr að eigin sögn orku eftir glæsilega frammistöðu í höfuðgreinunum tveimur, sem skiluðu honum sigri á mótinu, svo þar við sat.

„Þetta mót gefur mér mikið. Nú er ég kominn með mun stærri aðila sem fylgjast með mér, svo sem mótshaldara og eigendur þessarar keppni, og það gerir mér mun auðveldara fyrir með að komast inn á stórmót hér eftir,“ segir Kristján sem ætlar sér ótrauður á mótið Sterkasti maður Íslands í ágúst.

„Ég ætla að reyna við 400 kíló í réttstöðu þá, bæta Íslandsmetið mitt og verða fyrsti maður í -105 kg flokki á Íslandi til að „dedda“ 400 og bara sjöundi Íslendingurinn yfir höfuð til að lyfta þeirri þyngd,“ segir Kristján.

Átökin við stöngina í algleymingi og þyngdin ógurleg fyrir keppanda …
Átökin við stöngina í algleymingi og þyngdin ógurleg fyrir keppanda í -105 kg flokki. Kristján lét sér þó fátt fyrir brjósti brenna og hóf stálið upp af gólfinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig fannst þér að taka 350 núna, finnst þér að þú hefðir átt inni 360 í réttstöðunni?

„Já,“ svarar viðmælandinn án þess að hugsa sig um og þeir blaðamaður sammælast um að hann eigi inni 400 kílógrömm í ágúst, töluverður tími til stefnu.

Kristján stefnir að lokum á Sterkasta mann heims í byrjun desember og hver veit hvað gerist þá eftir svo glæsilega frammistöðu í Londonderry á Norður-Írlandi í síðustu viku? Við spyrjum að leikslokum og mbl.is fylgist að sjálfsögðu með þessum gallharða aflraunamanni sem ætlar sér ekkert nema stóra hluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert