Guðjón Valur verður með í kvöld

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, kemur inn í hópinn …
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, kemur inn í hópinn fyrir síðari leikinn í Porto í kvöld. Ljósmynd/ Foto Olimpik

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, leikur með liðinu þegar það mætir Portúgal í síðari leiknum um sæti á HM í handknattleik karla í Porto í kvöld. Hann var ekki með í fyrri leiknum sem fram fór í Laugardalshöllinni á sunnudaginn vegna meiðsla.

Bjarki Már Elísson, sem leysti Guðjón Val af í fyrri viðureigninni, verður utan 16 manna hópsins í kvöld. Að öðru leyti stillir Geir Sveinsson landsliðsþjálfari upp sama hóp leikmanna í leiknum og í fyrri viðureigninni.

Íslenska landsliðið vann leikinn við portúgalska landsliðið síðasta sunnudag með þriggja marka mun, 26:23. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja ráða því hvort landsliðið tekur sæti á HM sem fram fer í Frakklandi í janúar nk.

Flautað verður til leiks í Porto klukkan 20 að íslenskum tíma. Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert