Ilic skiptir um ham

Momir Ilic sækir að marki Kiel í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu …
Momir Ilic sækir að marki Kiel í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í lok síðasta mánaðar. AFP

Stórskyttan Momir Ilic hefur sótt um ungverskt ríkisfang fyrir sig og fjölskyldu sína. Talið er að sú ósk gangi greiðlega í gegn. Þar með þykir ljóst að Ilic leikur ekki fleiri landsleiki fyrir serbneska landsliðið í handknattleik. 

Ilic hefur leikið með ungverska stórliðinu Veszprém síðustu tvö árin eftir að hafa gert garðinn frægan undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel um langt árabil. Ilic líkar svo vel við sig í Ungverjalandi að hann er reiðubúinn að snúa baki við heimalandi sínu.

Ilic lék síðast með serbneska landsliðinu fyrir ári síðan. Verði beiðni hans um ungverskt ríkisfang afgreidd á jákvæðan hátt fljótlega verður Ilic þó aldrei gjaldgengur með ungverska landsliðinu fyrr en eftir ár. Reglur Alþjóðahandknattleikssambandsins kveða á um að skipti menn um ríkisfang verði að líða rétt tvö ár frá síðasta landsleik fyrir það landslið sem yfirgefið er þangað til menn mega taka upp þráðinn með öðru landsliði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert