Jóhann frábær í góðum sigri FH

Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH og Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV.
Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH og Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

FH bar sigurorð af ÍBV 36:30 þegar liðin mættust í fjórðu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í dag. Bæði lið hafa fimm stig eftir fyrstu fjórar umferðir deildarinnar.

Eyjamenn hófu leikinn af miklum krafti og Sigurbergur Sveinsson lék við hvern sinn fingur í upphafi leiksins. FH-ingar náðu hins vegar að þétta vörnina og bakvið vörnina var Ágúst Elí Björgvinsson í miklu stuði. Sóknarleikur FH batnaði auk þess þegar á leið á fyrri hálfleikinn og staðan var 15:15 í hálfleik.

Tveimur leikmönnum var vísað af velli með rauðu spjaldi í fyrri hálfleik. Ágústi Birgisson, leikmanni FH, var vísað af velli með beinu rauðu spjaldi fyrir harkalegt brot á Agnari Smára Jónssyni, leikmanni ÍBV. Þá var Sindra Haraldssyni, leikmanni ÍBV, vikið þrisvar sinnum af velli í tvær mínútur og var þar af leiðandi vísað af velli með rauðu spjaldi.

FH hóf seinni hálfleikin betur og náði mest fjögurra marka forskoti. Munaði þar miklu um framlag Jóhans Birnis Ingvarssonar í sóknarleik FH, en Jóhann Birgir skoraði mörk í öllum regnbogans litum. ÍBV neitaði hins vegar að gefast og minnkaði muninn í tvö mörk um miðbik seinni hálfleiks.

Þá kom annar góður kafli hjá FH-liðinu þar sem Ágúst Elí Björgvinsson skellti í lás í marki FH og FH náði sex marka forystu. Það forskot lét liðið ekki af hendi og niðurstaðan sex marka sigur heimamanna.

Jóni Bjarna Ólafssyni, leikmanni FH, var vikið af velli í þriðja skipti undir lok leiksins og var þar af leiðandi vísað af velli með rauðu spjaldi.

Jóhann Birgir Ingvarsson var markahæstur í liði FH með 10 mörk, en Sigurbergur Sveinsson var hins vegar  markahæstur í liði gestanna sömuleiðis með 10 mörk. Ágúst Elí Björgvinsson varði 17 skot í marki FH, en Kolbeinn Aron Arnarson og Andri Ísak Sigfússon vörðu samtals níu skot í marki ÍBV.

FH jafnaði ÍBV að stigum með þessum sigri, en liðin hafa hvort um sig fimm stig eftir fjórar umferðir.

FH 36:30 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með 36:30 sigri FH.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert