„Okkar næstbesti leikur“

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Haukar féllu úr leik í annarri umferð í EHF-bikar karla í handbolta eftir fjögurra marka tap gegsænska liðinu Alingsås ytra í gær. Lokatölur í leiknum í gær urðu 31:27 Alingsås í vil, en fyrri leik liðanna lyktaði með 24:24 jafntefli og Alingsås fer þar af leiðandi áfram í þriðju umferð keppninnar.

Haukar fóru illa að ráði sínu í fyrri leik liðanna í Schenker-höllinni fyrir rúmri viku. Haukar köstuðu frá sér sigrinum í þeim leik á heimavelli eftir að hafa náð mest átta marka forskoti.

Alingsås hafði hins vegar frumkvæðið í leiknum í dag og var með nokkuð öruggt forskot allan leikinn. Alingsås náði fljótlega þriggja marka forskoti og höfðu þriggja til sjö marka forystu allan leikinn og sigur liðsins í raun aldrei í hættu.

Sýnir styrk íslensku liðanna

„Það var klaufaskapur hjá okkur að fara ekki með fjögurra til fimm marka forskot í veganesti úr heimaleiknum. Við vorum átta mörkum yfir í fyrri leiknum þegar um það bil 20 mínútur voru eftir og það hefði sett einvígið í annað samhengi ef við hefðum náð að hanga á þeirri forystu út leikinn,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn í gær.

„Við misstum einbeitinguna í sóknarleiknum á smá kafla í fyrri hálfleik og þeir voru fljótir að refsa okkur með hraðaupphlaupum. Þeir náðu forskoti sem sem við náðum aldrei að brúa og því fór sem fór,“ sagði Gunnar um muninn á milli liðanna í leiknum í gær.

„Heilt yfir spiluðum við hins vegar vel í þesssum leik ef frá er talinn þessi slæmi kafli sem ég talaði um áðan. Þetta var næstbesti leikur okkar á tímabilinu og besta frammistaða okkar á tímbilinu var í fyrri leik liðanna,“ sagði Gunnar enn fremur um frammistöðu Haukaliðsins.

„Við sýnum það í þessum leikjum hversu sterk íslenska deildin er og hversu nálægt við erum liðunum á Norðurlöndunum að getu. Nú þurfum við hins vegar að færa þessar góðu frammistöður yfir í deildarleikina og fara að spila af fullri getu á þeim vettvangi,“ sagði Gunnar um framhaldið hjá Haukum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert