„Ég skil þetta ekki“

Elín Jóna Þorsteinsdóttir fór hamförum í Safamýri í kvöld en …
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fór hamförum í Safamýri í kvöld en það dugði ekki til. mbl.is/Eggert

Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti sannkallaðan stórleik í marki Hauka í kvöld og varði 20 skot, fékk aðeins 5 mörk á sig í öllum seinni hálfleik, en varð að sætta sig við tap gegn Fram, 17:16, í Olís-deildinni í handbolta.

Aðspurð hversu erfitt það væri að sjá allar þessar markvörslur ekki skila sér í neinum stigum svaraði Elín Jóna róleg:

„Það er ekkert rosalega skemmtilegt. Ég átti líka að verja fleiri skot, þessa „klaufabolta“ sem fóru inn líka, þó að maður hafi kannski bætt það upp með því að verja önnur skot.“

Haukar voru 12:7 undir eftir fyrri hálfleik og tókst ekki að hleypa spennu í leikinn fyrr en á lokamínútunum, þrátt fyrir stórleik Elínar Jónu.

„Mér fannst sóknin vera svolítið stíf. Við þurfum að hafa meiri skotógn fyrir utan, erum svolítið að hnoða okkur á milli leikmanna, en Fram er auðvitað með mjög góða vörn og líka góðan markmann fyrir aftan, en við verðum þá að hafa eitthvað annað í vasanum,“ sagði Elín Jóna, eiginlega furðu lostinn yfir lágu markaskori leiksins.

„Ég skil þetta ekki. Þetta er auðvitað ekki neinn markafjöldi, sérstaklega í ljósi þess að þetta var mjög hraður leikur.“

Haukar voru án Ramune Pekarskyte í kvöld og skotógnunin hefði að sjálfsögðu verið meiri með þá frábæru skyttu inni á vellinum. Elín Jóna tók undir að söknuður hefði verið að henni:

„Það er það auðvitað, en það kemur maður í manns stað og maður á ekki að vera að treysta á einhvern einn leikmann, þó að Ramune sé okkur mjög kærkominn leikmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert