Tvíburasystur brjóta blað á HM

Julie og Charlotte Bonaventura, tvíburasystur og handknattleiksdómarar, dæma á HM …
Julie og Charlotte Bonaventura, tvíburasystur og handknattleiksdómarar, dæma á HM karla í Frakklandi í næsta mánuði. Ljósmynd/IHF

Frönsku tvíburasysturnar Julie  og Charlotte Bonaventura brjóta blað á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem fram fer í Frakklandi í næsta mánuði. 

Þær verða fyrstu konurnar til þess að dæma leiki á heimsmeistaramóti í handknattleik karla. Hinar 36 ára gömlu tvíburasystur eru meðal sautján dómarapara sem dæma leiki keppninnar og einu konurnar. Ekkert íslenskt dómarapar tekur þátt í heimsmeistaramótinu. 

Bonaventura eru 36 ára gamlar og eru þrautreyndar og alvanar að dæma handboltaleiki karla því þær hafa dæmt undanfarin ár leiki í efstu deild hjá körlum í heimalandi sínu. Þær dæmdu leik í karlaflokki á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum. Einnig hafa þær dæmt á öllum stórmótum í kvennaflokki, s.s. á HM, EM, Ólympíuleikum og í Meistaradeild Evrópu. 

Systurnar hafa dæmt landsleiki kvenna hér á landi og voru m.a. í eldlínunni á EM í Serbíu fyrir fjórum árum þegar íslenska landsliðið mætti rússneska landsliðinu í lokaumferð riðlakeppninnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert