Fáránleg dramatík og læti

Ítalska landsliðið í sigurvímu eftir leikinn í gær.
Ítalska landsliðið í sigurvímu eftir leikinn í gær. Ljósmynd/Twitter

Það er óhætt að segja að dramatíkin verður vart meiri en þeir 1.500 áhorfendur urðu vitni að í Siracusa á sunnanverðri Ítalíu í gær.

Ítalska karlalandsliðið í handknattleik tryggði sér þá sæti í annarri umferð forkeppninnar fyrir Evrópumótið árið 2020 með því að sigra Lúxemborg, 26:24. Lúxemborg hafði unnið fyrri viðureign liðanna með einu marki og því þurftu Ítalir að vinna með tveimur til þess að komast áfram.

Dean Turkovic, stærsta stjarna Ítala, var markahæstur með tíu mörk og hans verður lengi minnst eftir leikinn í gær. Staðan var 25:24 fyrir Ítalíu þegar átján sekúndur voru eftir og ítalska liðið í sókn. Tíminn virtist vera að fjara út þegar Turkovic tók af skarið.

Rétt í þann mund sem lokaflautið gall náði hann ótrúlegu skoti á markið, í gegnum vörn Lúxemborgar og í bláhornið. Allt ætlaði um koll að keyra í höllinni, enda Ítalir að tryggja sig áfram á heldur betur dramatískan hátt.

Leikið var í þremur undanriðlum á fyrsta stigi forkeppninnar og ásamt Ítalíu komust Eistland og Grikkland áfram í aðra umferð. Þar koma hinar þjóðirnar inn í riðlakeppni þar sem sæti á EM er í húfi, en keppnin fer fram í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í janúar 2020.

Þá verða í fyrsta sinn 24 þjóðir sem komast í lokakeppnina.

Hér að neðan má sjá upptöku af leik Ítalíu og Lúxemborgar í gær, en spóla þarf fram á mínútu 1:43:49 til þess að sjá lokasóknina. Í kjölfarið fylgja fagnaðarlætin og þá missti ítalski lýsandinn sig gjörsamlega í fagnaðarlátunum sömuleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert