Stór sigur að geta hlaupið og tekið á

Rakel Dögg Bragadóttir skoraði 9 mörk í sigrinum á Val.
Rakel Dögg Bragadóttir skoraði 9 mörk í sigrinum á Val. mbl.is/Golli

„Það eitt og sér að ég skuli geta hlaupið og tekið aðeins á, er ég alveg ótrúlega ánægð með. Um tíma var ekkert endilega útlit fyrir það,“ segir handknattleikskonan Rakel Dögg Bragadóttir úr Stjörnunni. Rakel neyddist til að leggja skóna á hilluna í nóvember 2013 vegna höfuðmeiðsla, en sneri aftur til keppni fyrir tæpu ári síðan og hefur á skömmum tíma stimplað sig aftur inn sem lykilmaður hjá Stjörnunni, unnið sér sæti í landsliðinu á nýjan leik og afrekað það að spila sinn 100. landsleik.

Rakel skoraði 9 mörk fyrir Stjörnuna um helgina þegar liðið vann Val, 23:22, og styrkti stöðu sína í 2. sæti Olís-deildarinnar. Liðið er fimm stigum á undan næstu liðum og fjórum stigum á eftir toppliði Fram eftir 11 umferðir.

„Við erum ennþá í toppbaráttu, að þjarma að Frömurum, og mér finnst við hafa verið að bæta okkur eftir því sem líður á veturinn. Við stefnum auðvitað á 1. sætið, en erum sáttar með hvar við erum og hvernig hefur gengið,“ segir Rakel.

„Ég er heilt yfir sátt með hvernig gengur hjá mér. Þetta var langur tími þar sem ég var ekkert að æfa, og það hefur tekið tíma að ná upp styrk, þoli og þori. Mér finnst ég sífellt vera að bæta mig í öllum þessum þáttum,“ bætir hún við.

Viðtalið í heild má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert