„Erum litla liðið í einvíginu“

Elín Anna Baldursdóttir.
Elín Anna Baldursdóttir. mbl.is/Golli

„Það er bara hugur í okkur Haukunum. Við eru hvergi bangnar og ætlum að selja okkur dýrt í þessu einvígi,“ sagði Elín Anna Baldursdóttir leikmaður Hauka sem mæta Fram í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik í Fram-húsinu á morgun.

„Við erum klárar í slaginn. Við höfum síðustu daga verið að leikgreina Fram-liðið en maður veit svo sem aldri hverju Stebbi þjálfari Frama tekur upp á. Við erum litla liðið í þessu einvígi og það má kannski segja að við höfum engu að tapa. Ég held að þeir hafi verið fáir sem spáðu því að Fram og Valur myndu hafa betur á móti Haukum og ÍBV í átta liða úrslitunum hjá körlunum og ég tel alveg vera möguleika fyrir okkur og Gróttu að komast í úrslitin,“ sagði Elín Anna, en Haukar lentu í 3. sæti í deildarkeppninni á eftir Fram.

„Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að spila vel til að eiga möguleika á að slá sterkt lið Framara úr leik en við höfum unnið Fram einu sinni í vetur og það gefur okkur trú á að við getum staðið uppi í hárinu á þeim og farið með sigur af hólmi í þessu einvígi. Það er metnaður hjá Haukum að vinna titla og við förum í þessa leiki með það að markmiði að vinna,“ sagði Elín Anna við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert