„Ætlum að segja stopp“

Brynhildur Kjartansdóttir er hér að skora fyrir Stjörnuna í fyrsta …
Brynhildur Kjartansdóttir er hér að skora fyrir Stjörnuna í fyrsta leiknum gegn Gróttu í undanúrslitum Olís-deildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Við í stjórninni hittumst í dag og tókum þá ákvörðun að við ætlum að segja stopp og ætlum ekki að kæra niðurstöðu mótanefndar HSÍ til dómstóls HSÍ,“ sagði Karl Daníelsson, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, við mbl.is í dag.

Mótanefnd HSÍ dæmdi Gróttu 10:0 sigur í Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar eftir að kom í ljós að Na­ta­ly Sæ­unn Valencia tók þátt í leiknum í liði Stjörnunnar en hún var ekki skráð á leikskýrslu. Í kjölfarið óskaði Stjarnan eftir endurupptöku í málinu en mótanefndin hittist á fundi í dag og varð ekki við beiðni Stjörnunnar eins og áður hefur komið fram á mbl.is.

„Í framhaldinu ætlum við að senda HSÍ formlegt erindi um breytingar á verklagi varðandi handboltann. Allt verklagið þarf að vera skýrara. Við unum niðurstöðu mótanefndarinnar og ég held að við séum félag með meiru að stöðva þetta mál og halda úrslitakeppninni áfram en það hefði sett hana upp í loft ef við hefðum sent inn kæru. Við erum sökudólgurinn í þessu máli og það hefur aldrei verið neinn vafi um það. Við gerðumst brotleg og við verðum að taka því,“ sagði Karl við mbl.is.

Grótta er þar með 2:0 yfir í einvíginu og með sigri gegn Stjörnunni í TM-höllinni í Mýrinni í kvöld tryggja Íslandsmeistararnir sér farseðilinn í úrslitaeinvígið en flautað verður til leiks í Garðabænum klukkan 20

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert