Þægilegt að þetta sé í okkar höndum

Aron Pálmarsson brýst í gegnum vörn Makedóníu í Laugardalshöll í …
Aron Pálmarsson brýst í gegnum vörn Makedóníu í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta dugði til þess að tryggja okkur þau tvö stig við þurftum að ná í. Mér fannst við vera með yfirhöndina í leiknum þrátt fyrir að komast ekki almennilega í gang fyrr en undir lok leiksins. Þeir náðu að halda hraðanum niðri framan af leiknum, en þegar við náðum hraðanum upp í seinni hálfleik þá fannst mér þetta aldrei spurning,“ sagði Aron Pálmarsson sem skoraði þrjú mörk í 30:29-sigri Íslands gegn Makedóníu í undankeppni EM 2018 í handbolta karla í Laugardalshöllinni í kvöld.

„Við náðum ekki nógu mikilli forskoti þrátt fyrir að vera með leikinn í okkar höndum og við gátum því ekki slakað á. Ég var ekki smeykur þó svo að þeir næðu að minnka muninn í eitt mark undir lok leiksins. Þetta snerist bara um að fara ekki út í neina ævintýramennsku í lokasókninni okkar og halda aga. Það tókst og við náðum í stigin tvö sem í boði voru,“ sagði Aron um þróun leiksins í kvöld.

„Ég hefði viljað vinna stærri sigur þar sem markatala gæti mögulega skipt máli þegar upp er staðið. Sigur í þeim tveimur leikjum sem eftir eru mun hins vegar duga til þess að tryggja okkur sæti í lokakeppninni og ef við spilum eins og við spilum í kvöld munum við klára þá tvo leiki sem eftir eru með sigri. Það er þægileg tilfinning að hafa þetta í okkar höndum og ég hlakka mjög til lokaleikjanna í júní,“ sagði Aron enn fremur um leikinn og framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert