Maður pínir sig áfram

Ólafur Guðmundsson stekkur upp fyrir framan vörn Makedóníu í Laugardalshöll …
Ólafur Guðmundsson stekkur upp fyrir framan vörn Makedóníu í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Golli

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæsti maður Íslands með sjö mörk í 30:29 sigrinum á Makedóníu í undankeppni EM sem fram fer í Króatíu í byrjun næsta árs. Þrátt fyrir að Ísland hafi aðeins unnið með einu marki var sigurinn nokkuð öruggur að mati Ólafs. 

„Við fengum betri vörn og sérstaklega í seinni hálfleik. Við náðum að brjóta upp leikinn þegar við skiptum í 5-1 vörn. Það var engin stór breyting, en við fengum þá til að drippla aðeins meira og gera þá óöruggari, þá náðum við forskoti og þetta var öruggt í lokin þó að við gerðum þetta full spennandi.“

„Ég hugsaði þegar við vorum að vinna með fjórum að við gætum unnið þá með fimm og verið með innbyrðis á þá, ég gældi við það en það fór sem fór. Við byrjuðum að slaka aðeins á og hika of mikið, þá tóku þeir sénsinn og nýttu hann vel, það skiptir mestu máli að taka tvö stig, við þurftum það fyrst og fremst.“

Öll lið riðilsins eru nú með fjögur stig eftir fjóra leiki, en öll liðin hafa fram að þessu unnið heimaleiki sína og tapað útileikjunum. 

„Það má ekki tapa stigum á heimavelli, við erum búnir að tapa tveim útileikjum og þess vegna þurfum við enn frekar að vinna útileikina. Við erum yfirleitt sterkir hér heima. Þetta er enn í okkar höndum og við þurfum ekki að treysta á önnur úrslit, það er þægilegt að vera með þá hugsun. Þetta liggur hjá okkur og við viljum byggja ofan á það.“

„Það er alltaf aðeins öðruvísi en við erum allir atvinnumenn og við kunnum allir að spila á útivelli. Það er samt sama í hvaða íþrótt það er, það er alltaf aðeins öðruvísi að spila heima og sérstaklega með landsliðinu, það er meira um tilfinningar og maður fær flotta stemningu. Það hefur reynst okkur vel að spila á heimavelli en við þurfum að taka tvö stig í Tékklandi.“

Ólafur var skiljanlega ánægður með frammistöðu sína í leiknum, en hann var að kveinka sér örlítið í leikslok. 

„Ég er mjög sáttur, ég var áræðinn og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Ég var duglegur að fara á markið og mín skot voru inni í dag. Ég spilaði svo stórt hlutverk í vörninni, í seini hálfleik var ég meira í varnarhlutverki og að reyna að vinna á skytturnar hjá þeim. Ég missi aðeins dampinn í sókninni í seinni hálfleik en við náum að sigla þessu heim, svo ég er sáttur.“

„Ég er orðinn svolítið stífur í kálfunum. Ég var að vinna framarlega í vörninni og ég er farinn að stífna upp í kálfunum, það er ekkert alvarlegt. Ég hefði getað spilað í 120 mínútur fyrir sigurinn, maður pínir sig áfram,“ sagði markahæsti maður íslenska liðsins í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert