Með leikmenn frá ellefu löndum

Arnar Freyr Theodórsson
Arnar Freyr Theodórsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafnfirðingurinn Arnar Freyr Theodórsson er með óvenjulegan starfstitil. Hann starfar ekki sem sjómaður, bóndi, kennari eða lögfræðingur heldur er hann umboðsmaður handboltamanna.

Er reyndar fyrrverandi kennari en þarf ekki á öðrum tekjum að halda núorðið en þeim sem hann hefur upp úr því að sinna starfi umboðsmannsins.

Morgunblaðið settist niður með Arnari á Súfistanum í Hafnarfirði og fékk að forvitnast um heiminn sem hann hrærist í. Kúnnahópurinn hjá Arnari er stór og fjölbreyttur. „Ég er með í kringum 45 leikmenn sem eru á samningi við mig. Ég er skuldbundinn þeim og þeir mér. Þeir koma frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Spáni, Póllandi, Króatíu, Serbíu, Slóveníu, Makedóníu, Þýskalandi. Vonandi bæti ég við mig Frakka á næstunni en í gegnum tíðina hef ég líka verið með Rússa og Portúgala.

Ég er einnig með hóp af leikmönnum sem ég þekki vel og get leitað í. Ég er því upplýstur um hvað er að gerast hjá þeim. Einnig eru þrír til fjórir umboðsmenn sem ég er í samskiptum við og fyrir kemur að við vinnum saman ef aðstæður kalla á það. Ef ég tel þetta allt saman þá erum við líklega að tala um 150-200 leikmenn. Sú staða gæti komið upp að félag hefur samband við mig vegna þess að leikmann vantar í ákveðna stöðu. Leikmennirnir 45 sem eru á samningi hjá mér eru þá kannski samningsbundnir eða henta ekki liðinu. Þá leita ég í hinn hópinn eða hef samband við hina umboðsmennina.“

Er með Aron og Sagosen

Arnar hefur starfað með þekktum leikmönnum í handboltaheiminum í gegnum árin. Þar á meðal Aroni Pálmarssyni en sem dæmi um erlenda leikmenn má nefna Sander Sagosen, rísandi stjörnu Norðmanna, sem mun fara til franska stórliðsins PSG í sumar. Þá vita margir íslenskir áhugamenn til þess að Arnar vann með Kiril Lazarov um tíma.

„Þekktustu leikmennirnir sem ég er með í dag eru væntanlega Aron Pálmarsson, Norðmennirnir Sander Sagosen og Kristian Bjørnsen, Makedónarnir Borko Ristovski og Dejan Manaskov. Svo er ég með leikmenn sem þú kemur til með að þekkja mjög vel eftir skamman tíma. Tveir þeirra eru að fara til Flensburg í sumar: Magnus Rød frá Noregi og Simon Jeppsson frá Svíþjóð sem báðir voru á HM í vetur,“ bendir Arnar á.

Sjá ítarlegt viðtal við Arnar Frey í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert