Dagur fær fjóra til Japans – „Ég get ekki beðið“

Orri Freyr Gíslason fagnar með Valsmönnum í vor.
Orri Freyr Gíslason fagnar með Valsmönnum í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik, hefur samið um að fá fjóra íslenska leikmenn út til þess að æfa undir hans stjórn í Japan um tveggja vikna skeið í júlí.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Ágúst Birgisson úr FH, Elvar Ásgeirsson úr Aftureldingu, Orri Freyr Gíslason frá Val og Róbert Aron Hostert hjá ÍBV.

„Ég get ekki beðið eftir að fara til Japans, en þeir borða víst mikinn fisk. Ég borða eiginlega ekki fisk, svo ég er í smá veseni með það,“ sagði Orri Freyr léttur þegar mbl.is hafði samband við hann um þetta verkefni. En hvernig kom það upp?

„Óskar Bjarni [Óskarsson, þjálfari Vals] og Dagur eru mjög góðir vinir og Óskar spurði mig hvort ég hefði áhuga á því að byrja tímabilið snemma og æfa undir einum af okkar bestu þjálfurum. Ég gat ekki sagt nei við því og frúin gaf grænt ljós á þetta. Dagur er einn færasti þjálfari í heimi og það verður gaman að fylgjast með hans aðferðum,“ sagði Orri.

„Hvenær á maður leið til Japans?“

Dagur er sagður hafa viljað fá líkamlega sterka leikmenn til þess að venja japanska landsliðið við, en hann er að byggja upp lið fyrir gestgjafana fyrir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

„Hann bað um okkur og ég vona bara að ég hafi ekki verið númer tíu í röðinni, heldur ofarlega á blaði. Þetta er fyrst og fremst gott tækifæri og gaman að fá að æfa með vonandi alvöruleikmönnum. Þetta verður ævintýri, ég hugsa þetta þannig. Hvenær á maður leið til Japans? Ég sé það ekki alveg í spilunum,“ sagði Orri.

Dagur Sigurðsson stýrir japanska landsliðinu.
Dagur Sigurðsson stýrir japanska landsliðinu. AFP

Þeir félagar fara út 10. júlí og verða í tvær vikur.

„Ég veit bara að við munum æfa þarna saman og mér skilst að þetta sé algjör geðveiki, bara æfingar. En ætli verði ekki nóg af leikmönnum til þess að stilla upp í tvö lið,“ sagði Orri.

Þetta verður ágætispartý

Hann á ekki von á því að illa fari um þá.

„Ég held við gistum í ólympíuþorpinu og verðum allir saman þarna Íslendingarnir. Ég held að þetta verði bara ágætispartý, þetta eru allt toppmenn að fara út svo ég hef engar áhyggjur af því að þetta verði ekki gaman,“ sagði Orri, og var alveg tilbúinn að hefja undirbúningstímabilið svona snemma.

„Maður er byrjaður að hreyfa sig aftur og ég reyni að fara út í standi. Það er meiningin að koma til baka í toppformi áður en tímabilið byrjar hérna. Þetta verður mikið ævintýri og reynsla að kynnast einhverju öðru en að vera bara í Val,“ sagði Orri Freyr Gíslason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert