Íslensku strákarnir tóku Sádana í kennslustund

Ólafur Stefánsson annar af þjálfurum íslenska landsliðsins ræðir við sína …
Ólafur Stefánsson annar af þjálfurum íslenska landsliðsins ræðir við sína menn. Ljósmynd/IHF

Íslenska 21 árs landsliðið í hand­knatt­leik karla burstaði Sádi-Arabíu, 48:24, í öðrum leik sínum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Alsír.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir íslenska liðsins algjörir en staðan í hálfleik var 24:9. Sádarnir byrjuðu leikinn hins vegar betur. Þeir komust í 3:2 en þá setti íslenska liðið á fulla ferð, skoraði 10 mörk í röð og leit ekki til baka eftir það.

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 mörk, Hákon Daði Styrmisson skoraði 7 og þeir Kristján Örn Kristjánsson, Birkir Benediktsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson voru með 6 mörk hver.

Ísland hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í D-riðli mótsins en liðið hafði betur á móti Argentínu í gær, 36:27. Íslensku strákarnir leika sinn þriðja leik á mótinu á föstudagskvöld en þá mæta þeir gestgjöfunum í Alsír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert