Vítakeppnin í beinni eldsnemma á sunnudag

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn St.Pétursborg í fyrri leik …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn St.Pétursborg í fyrri leik liðanna í EHF-keppninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stuðningsmenn FH og fleiri handboltaáhugamenn verða að taka daginn snemma á sunnudaginn en klukkan 9 fyrir hádegi að íslenskum tíma hefst vítakeppni rússneska liðsins St.Pétursborg og FH.

Evrópska handknattleikssambandið, EHF, mun sýna vítakeppnina í beinni útsendingu á facebook-síðu sinni en sigurliðið úr henni mætir liði Tatran Presov frá Slóvakíu í 3. umferð EHF-keppninnar.

Aðeins þeim leikmönnum sem tóku þátt í leiknum í St.Pétursborg í síðasta mánuði er heimilt að taka þátt í vítakeppninni en eins og fram hefur komið fara FH-ingar út á föstudaginn með allan sinn leikmannahóp. EHF-greiðir allan kostnað Hafnarfjarðarliðsins vegna ferðarinnar til Rússlands.

Miro Korja og Christopher Metsämäki frá Finnlandi munu dæma vítakeppnina en nafn eftirlitsmannsins hefur ekki verið gefið upp. Væntanlega verður það ekki sá sami og klúðraði málunum eftir síðari leik liðanna en honum urðu þá á þau mistök að láta framlengja leikinn í stað þess að liðin væru beint í vítakeppni.

Leikur ÍBV og FH sem átti að fara fram í Eyjum á mánudagskvöld hefur færður til miðvikudagsins 15. nóvember og fer leikurinn fram í Kaplakrika. Ástæða þess að leikurinn fer fram í Krikanum er sú að Eyjamenn halda til Hvíta-Rússlands á fimmtudaginn þar sem þeir spila fyrri leik sinn gegn Gomel í Áskorendakeppni Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert