FH tók Fram í aðra kennslustund

Jóhann Karl Reynisson sækir að marki Fram í kvöld.
Jóhann Karl Reynisson sækir að marki Fram í kvöld. Ljósmynd/Hanna

FH-ingar tóku Framara í kennslustund í annað sinn á þessu tímabili í Olís-deild karla og með sigrinum í Kaplakrika í kvöld, 39:26, náðu FH-ingar þriggja stiga forskoti í deildinni.

Þetta var leikur kattarins að músinni í 60 mínútur. FH-ingar léku við hvern sinn fingur á meðan leikur Framara var í molum og þá sérstaklega í vörninni. FH-ingar gátu vandræðalaust labbað í gegnum vörn Framara trekk í trekk og það var snemma ljóst í hvað stefndi. Framarar virðast ekkert hafa lært af útreiðinni sem þeir fengu í 1. umferðinni en þá vann FH með 17 marka mun. Staðan eftir fyrri hálfleikin í kvöld var 22:12 og aðeins formsatriði að ljúka leiknum.

FH-ingar slökuðu aðeins á klónni í seinni hálfleik og það eðlilega þar sem þeir eiga gríðarlega mikilvægan Evrópuleik í Krikanum á laugardaginn og yngri og óreyndari leikmenn fengu að spreyta sig.

Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, fór hamförum á milli stanganna en hann varði 22 skot á þeim 44 mínútum sem hann spilaði. Línumaðurinn Jóhann Karl Reynisson átti mjög góðan leik og réðu Framarar ekkert við hann og Gísli Þorgeir Kristjánsson var geysilega öflugur.

Framarar eiga í vændum langan og strangan vetur en þeir voru afar slakir og varnarleikur liðsins var hreint út sagt hörmulegur og þá einkum og sér í lagi í fyrri hálfleik.

FH 39:26 Fram opna loka
60. mín. Jónatan Vignisson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert