Lið sem hentar mér vel

Óðinn Þór Ríkharðsson.
Óðinn Þór Ríkharðsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er bara virkilega ánægður með að þessi mál skulu vera í höfn og ég tel að GOG henti mér ákaflega vel,“ sagði handboltamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson við mbl.is en hann mun ganga til liðs við danska úrvalsdeildarliðið GOG næsta sumar.

„Þetta er búið að vera í gangi eiginlega frá því tímabilið byrjaði í haust og ég er mjög spenntur fyrir þessu. Það voru fleiri lið í Danmörku og Þýskalandi sem ég ræddi við en mér leist best á GOG og tel það vera liðið sem hentar mér best. Það leggur mikið upp úr því að spila hraðan handbolta og hraðaupphlaup og það eitthvað sem á vel við mig,“ sagði Óðinn Þór, sem er sínu öðru tímabili með FH en hann kom til Hafnarfjarðarliðsins frá Fram.

Óðinn Þór er tvítugur hægri hornamaður sem hefur afar drjúgur með FH-liðinu og hefur sallað inn mörkum með liðinu. Hann skoraði 161 mark í 27 deildarleikjum með FH á síðustu leiktíð og hefur skorað 66 mörk í 12 leikjum FH-liðsins í Olís-deildinni á þessu tímabili. Hann hefur spilað með öllum yngri landsliðunum og hlaut eldskírn með A-landsliðinu í síðasta mánuði í leikjunum gegn Svíum í Laugardalshöllinni.

„FH hefur reynst mér ákaflega vel og nú stefni ég bara á að kveðja liðið í vor með því að vinna stóran titil með því. Ég hef náð að bæta mig mikið og þroskast sem leikmaður hjá FH þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar í einu og öllu. Ég hef átt mér þann draum síðan ég var lítill gutti að spila sem atvinnumaður og nú verður það að veruleika næsta tímabil. Ég er fara í mjög gott lið og í góða deild og vonandi næ ég svo að komast á enn stærra svið,“ sagði Óðinn Þór en samningur hans er til þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert