Gísli Þorgeir búinn að semja við Kiel

Gísli Þorgeir Kristjánsson með treyju Kiel.
Gísli Þorgeir Kristjánsson með treyju Kiel. Ljósmynd/Úr einkasafni

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að semja við þýska stórliðið Kiel til þriggja ára og mun ganga í raðir félagsins næsta sumar.

Gísli Þorgeir er 18 ára gamall og er einn efnilegasti handboltamaður landsins sem sló rækilega í gegn með FH-liðinu á síðustu leiktíð. Hann var valinn besti leikmaðurinn í úrslitakeppni Olís-deildarinnar þar sem FH tapaði fyrir Val í oddaleik. Gísli hefur leikið með öllum yngri landsliðunum, lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Svíum í Laugardalshöllinni í síðasta mánuði og hann er í 28 manna landsliðshópi Geirs Sveinssonar sem hann hefur valið fyrir EM sem fram fer í Króatíu í næsta mánuði.

Kiel hefur fylgst grannt með gangi mála hjá Gísla Þorgeiri og til stóð að hann skrifaði undir samning við félagið í sumar en rétt áður en úrslitakeppni U21 ára landsliða fór fram í Alsír í sumar fór hann úr olnbogalið og missti af HM og í kjölfarið ákvað Kiel að bíða með semja við Hafnfirðinginn unga. Gísli verður þriðji Íslendingurinn til að spila með Kiel en Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson léku með liðinu við góðan orðstír. Þá þjálfaði Jóhann Ingi Gunnarsson lið Kiel frá 1982 til 1986 og Alfreð Gíslason hefur stýrt liðinu frá árinu 2008 en hættir með liðið eftir næsta tímabil.

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik gegn Valsmönnum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik gegn Valsmönnum. mbl.is/Golli

Gísli Þorgeir fór ásamt föður sínum, Kristjáni Arasyni, til Kiel á dögunum þar sem Gísli gekkst undir læknisskoðun og að henni lokinni gerði hann samning við Kiel.

Kristján, faðir Gísla, gerði garðinn frægan á árum áður með FH og íslenska landsliðinu og hann lék sem atvinnumaður í nokkur ár. Hann lék með þýsku liðunum Hameln og Gummersbach og með Teka Santanter á Spáni og eftir að ferlinum lauk þjálfaði hann þýsku liðin Dormagen og Wallau Massenheim og þá þjálfaði hann lið FH bæði áður en hann tók við þjálfun þýsku liðanna og einnig eftir að hann sneri heim. Kristján lék 245 landsleiki og skoraði í þeim 1,123 mörk.

Kiel er sigursælasta handboltalið Þýskalands. Liðið hefur unnið þýska meistaratitilinn 20 sinnum, síðast árið 2015, hefur unnið bikarinn 10 sinnum, Evrópumeistaratitilinn í þrígang auk fleiri titla. Liðinu hefur ekki gengið sem skyldi á þessu tímabil en Kiel er í 7. sæti  eftir 15 umferðir í deildinni, er úr leik í bikarnum og er í 4. sæti í sínum riðli í Meistaradeildinni en mikil meiðsli hafa herjað á lærisveina Alfreðs á tímabilinu.

Þar með er ljóst að FH-ingar verða fyrir mikilli blóðtöku eftir tímabilið en í gær bárust af því fréttir að hægri hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson fer til danska úrvalsdeildarliðsins GOG næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert