Magnaður Aron fékk brons

Aron Pálmarsson í leiknum við Kielce í dag.
Aron Pálmarsson í leiknum við Kielce í dag. AFP

Aron Pálmarsson fékk áhorfendur í Lanxess Arena til að taka andköf með frammistöðu sinn í sigri Barcelona á Kielce í leiknum um bronsverðlaunin í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag.

Sóknarleikur Barcelona gekk afar smurt fyrir sig þegar Aron var innan vallar. Framan af fyrri hálfleik kom varla sú sókn sem ekki endaði með draumaúrslitasendingu leikstjórnandans en félagar hans fóru stundum illa með algjör dauðafæri. Barcelona náði þó fljótlega ágætu forskoti og var 12:7 yfir um miðjan fyrri hálfleik. Aron fékk þá stutta hvíld en Spánverjinn Raúel Entrerrios spilaði drjúgan hluta leiksins í leikstjórnandastöðunni á móti Aroni. Kielce lagaði stöðuna aðeins fyrir hálfleik en staðan að loknum fyrri hálfleik var 20:16.

Aron fékk að hvíla sig framan af seinni hálfleik og Kielce tókst að minnka muninn niður í tvö mörk, 31:29. Barcelona tók þá leikhlé, Aron sneri aftur inn á völlinn og Spánarmeistararnir skoruðu næstu tvö mörk. Barelona missti svo þrjá menn af velli með tveggja mínútna brottvísun en í þeirri stöðu skoraði Aron samt sem áður og kom sínum mönnum í 34:30. Barcelona hélt svo þægilegu forskoti til loka leiksins og tryggði sér bronsverðlaunin með 40:35-sigri.

Frakkinn Dika Mem var markahæstur hjá Barcelona með 8 mörk og Slóveninn Jure Dolenec skoraði 7 úr jafnmörgum tilraunum. Aron nýtti öll þrjú skot sín í leiknum en var eins og áður segir mun meira í því að leggja upp fyrir félaga sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert