Óánægja með störf Guðmundar innan landsliðsins

Guðmundur Þórður Guðmundsson lét óvænt af störfum sem þjálfari karlalandsliðsins …
Guðmundur Þórður Guðmundsson lét óvænt af störfum sem þjálfari karlalandsliðsins á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundi Þórði Guðmundssyni var gert að hætta þjálfun íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á dögunum.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.

Þjálfarinn, sem er 62 ára gamall, lét mjög óvænt af störfum sem þjálfari íslenska liðsins á þriðjudaginn var eftir að hafa stýrt liðinu samfleytt frá árinu 2018.

Ástæðurnar fyrir brottrekstri Guðmundar eru tvíþættar, annars vegar hefur árangur liðsins verið langt undir væntingum og hins vegar ríkti óánægja með störf þjálfarans, bæði innan leikmannahóps íslenska liðsins og hjá Handknattleikssambandi Íslands.

Undir stjórn Guðmundar hafnaði íslenska liðið í 11. sæti á HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi, 11. sæti í á EM 2020 í Austurríki, Noregi og Svíþjóð, 20. sæti á HM 2021 í Egyptalandi, 6. sæti á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu og loks 12. sæti á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi.

Heimildir mbl.is herma að bæði meðlimir í landsliðsnefnd HSÍ og leikmenn liðsins hafi viljað ljúka samstarfinu árið 2021, eftir að heimsmeistaramótinu í Egyptalandi lauk. Þess í stað var ákveðið að framlengja samning þjálfarans í tvígang.

Andrúmsloftið í herbúðum íslenska liðsins hefur ekki verið gott á síðustu stórmótum og var samband hans við leikmenn og aðra innan HSÍ komið í þann farveg að því var ekki viðbjargandi.

HSÍ ákvað því að ljúka samstarfinu en leit að nýjum þjálfara karlalandsliðsins hefst strax í næstu viku. Fram að nýrri ráðningu munu þeir Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson stýra liðinu.

Ekki náðist í Guðmund Þórð Guðmundsson  við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þá vildi Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, ekki tjá sig þegar eftir því var leitað.

Leikmenn íslenska liðsins fagna sigri gegn Brasilíu á HM í …
Leikmenn íslenska liðsins fagna sigri gegn Brasilíu á HM í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert