Tíminn verður að leiða það í ljós

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er loksins komin af stað á nýjan …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er loksins komin af stað á nýjan leik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Selfyssingurinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, leikmaður ÍBV, var svekkt þegar hún ræddi við mbl.is í kvöld, enda nýbúin að tapa fyrir Val, 28:22, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

„Við erum hundfúlar. Við vorum ekki að spila okkar leik og vorum einhverra hluta vegna ekki klárar í byrjun og þá var þetta brekka allan tímann,“ sagði hún við mbl.is.

Valskonur náðu góðu forskoti snemma og héldu því örugglega út allan leikinn.

„Ég tel muninn á liðunum ekki vera svona mikinn. Vissulega eru þær búnar að vera bestar á þessu ári og eru liðið til að sigra, en við getum gert betur. Við skoðum þetta og sjáum hvað við getum gert til að eiga betri leik.“

Hanna var ekkert með í deildarkeppninni í vetur vegna meiðsla í hné og hásinum. Hún er ánægð með að vera mætt aftur á völlinn, þrátt fyrir að hún sé ekki 100 prósent heil og þurfi að stýra álaginu. Hún tók víti ÍBV í leiknum og spilaði nokkuð mikið í seinni hálfleik.

„Þetta er búið að vera erfitt og ég er búin að vera mikið í meiðslum. Ég er að komast aðeins inn á völlinn. Það er gaman að vera komin í búning og fá að vera með stelpunum. Líkaminn er fínn núna og vonandi er þetta allt á uppleið.

Ég fór í aðgerð á hné og hásinum síðasta sumar, eftir meiðslin sem ég hlaut á síðasta tímabili. Þetta hefur verið pakki að díla við og hefur tekið langan tíma. Tíminn verður að leiða í ljós hversu mikið ég næ að koma til baka eftir sumarið,“ sagði Hrafnhildur Hanna.  

Elísa Elíasdóttir sækir að marki Vals í kvöld.
Elísa Elíasdóttir sækir að marki Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert