Töpuðum einum leik í allan vetur

Valskonurnar Hildur Björnsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir kyssa Íslandsbikarinn.
Valskonurnar Hildur Björnsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir kyssa Íslandsbikarinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er bara geggjað. Við erum búnar að vinna fyrir þessu í allan vetur,“ sagði reynsluboltinn Hildigunnur Einarsdóttir, eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik annað árið í röð með sigri á Haukum í kvöld.

„Við erum búnar að vera ógeðslega góðar. Við erum búnar að vera besta liðið í vetur. Við erum með einn tapaðan leik í allan vetur.

Það er geðveikur karakter í þessu liði. Við eigum þetta bara skilið. Það er ekki hægt að segja að við eigum þennan titil ekki skilinn.

Við erum með alla titlana í vetur. Það er ótrúlega flottur karakter í þessu liði og ég er ótrúlega stolt að vera hluti af þessu,“ hélt Hildigunnur áfram er mbl.is ræddi við hana eftir leik.

Haukar með ótrúlega gott lið

Valur byrjaði leikinn illa en tekst ávallt að vinna sig úr erfiðum stöðum þegar þær koma upp í leikjum. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig Valskonum tækist að gera það trekk í trekk.

„Það vantaði svona herslumuninn. Við skulduðum eiginlega einn gír í fyrri hálfleik. Ég tek ekkert af Haukum, þetta er ótrúlega gott lið.

Það halda líka allir að við getum mætt hálfheilalausar í leiki og unnið. Það virkar bara ekki þannig. Við þurfum að eiga okkar bestu leiki til þess að vinna toppliðin.

Við erum núna búnar að gera það þrisvar. Við erum kannski ekki alltaf búnar að vera góðar í 60 mínútur en þá gerist þetta. Það er fyrst og fremst karakter að koma alltaf til baka.

Við gerum þá litlu hlutina aðeins betur og lögum eitthvað í vörn og eitthvað í sókn sem við viljum breyta. Fyrst og fremst er þetta karaktersbreytingin sem þarf að eiga sér stað og dúndra sér í næsta gír,“ útskýrði hún.

Áhugi hjá báðum

Hildigunnur er 36 ára gömul en er hvergi nærri hætt.

Hvað ber framtíðin í skauti sér hjá þér?

„Það er bara mjög góð spurning! Ég er ekki búin að skrifa undir samning. Ég hef áhuga á að vera áfram og Valur hefur áhuga á að halda mér.

Vonandi leysist það á næstu dögum. Ég er ekki búin að skrifa undir neitt þannig að það kemur bara allt í ljós,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert