Stórsigur Króata sendi Kamerún heim

Króatar gátu vel fagnað enda aldrei skorað fjögur mörk í …
Króatar gátu vel fagnað enda aldrei skorað fjögur mörk í lokakeppni HM. AFP

Króatía hélt lífi í draumi sínum að komast upp úr A-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld þegar liðið gjörsigraði Kamerún, 4:0, sem er á heimleið frá Brasilíu. Króatía á fyrir höndum hreinan úrslitaleik við Mexíkó um að komast áfram.

Kamerún átti þó fyrsta hættulega færi leiksins og Króatarnir þurftu að bjarga á marklínu. Eftir það snerist dæmið hins vegar við og strax á 11. mínútu kom gamla kempan Ivica Olic Króötum yfir með snyrtilegu marki. Hann var um leið elsti markaskorari þeirra á HM, tæplega 35 ára gamall.

Ekki batnaði ástandið fyrir Kamerún því rétt fyrir leikhlé var miðjumaðurinn Alex Song rekinn af velli fyrir að slá til Mario Mandzukic. 1:0 í hálfleik og Kamerún manni færri.

Það tók Króata ekki nema þrjár mínútur að bæta við marki eftir hlé. Þar var að verki Ivan Peresic sem skoraði eftir frábært einstaklingsframtak, hörkusprett upp vinstri kantinn áður en hann lagði boltann í netið. Mario Mandzukic fékk dauðafæri skömmu síðar en átti eftir að bæta upp fyrir það.

Á 62. mínútu stangaði Mandzukic boltann í netið eftir hornspyrnu, en hann var sem kunnugt er í banni í fyrsta leik Króata eftir rauða spjaldið gegn Íslandi í haust. 3:0 og Kamerúnar gátu fyrir löngu farið að pakka saman.

Rúmum tíu mínútum síðar var hann aftur á ferðinni þegar hann fylgdi eftir skoti Eduardo úr vítateignum, 4:0 og enn rúmur stundarfjórðungur eftir en ekki voru mörkin fleiri.

Brasilía og Mexíkó eru með fjögur stig í A-riðli en Króatía er í þriðja sæti með þrjú stig og mætir Mexíkó í lokaleik sínum. Það er hreinn úrslitaleikur liðanna um sæti í 16-liða úrslitunum.

Kamerún mætir Brasilíu og á ekki möguleika á að komast áfram en gæti með sigri fellt gestgjafana úr keppni, ef úrslitin í leik Króatíu og Mexíkó verða óhagstæð fyrir Brasilíumennina.

Mario Mandzukic var í banni í fyrsta leik en skoraði …
Mario Mandzukic var í banni í fyrsta leik en skoraði tvö í kvöld. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert