Neymar heldur með Argentínu

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er líklega ekki alveg eins vinsæll í heimalandinu og áður eftir að hann lýsti því yfir í gærkvöld að hann héldi með erkifjendunum frá Argentínu í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar gegn Þýskalandi á sunnudagskvöldið.

Grannþjóðirnar í Suður-Ameríku eru svarnir óvinir í fótboltanum og dagblaðið O Dia sagði meðal annars í fyrirsögn eftir sigur Argentínu á Hollandi í fyrrakvöld að martröð Brasilíu héldi áfram. Reiknað er með að um 100 þúsund argentínskir stuðningsmenn verði í Río de Janeiro vegna úrslitaleiksins og það kætir heimamenn ekkert sérstaklega.

Neymar sagði á fréttamannafundi í gær að hann vonaðist til þess að Lionel Messi, samherji hans hjá Barcelona, og Argentína myndu vinna heimsmeistaratitilinn.

„Saga Messis í fótboltanum er svo mögnuð, hann hefur unnið fjölda titla og ég mun hvetja hann til dáða. Hann er vinur minn og liðsfélagi og ég óska honum góðs gengis,“ sagði Neymar en eins og alþjóð veit er hann með brákaðan hryggjarlið í baki og missti fyrir vikið af undanúrslitaleiknum gegn Þýskalandi í vikunni, sem og leiknum um 3. sætið gegn Hollandi á laugardagskvöldið kemur.

Neymar á fréttamannafundinum í gær.
Neymar á fréttamannafundinum í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert