Úrslitaleikurinn síðasti leikur Messi á heimsmeistaramóti

Lionel Messi fagnar sigri Argentínu gegn Króatíu í gærkvöldi.
Lionel Messi fagnar sigri Argentínu gegn Króatíu í gærkvöldi. AFP/Juan Mabromata

Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, hefur tilkynnt að úrslitaleikur HM karla í fótbolta í Katar verði hans síðasti á heimsmeistaramóti.

Argentína mætir annað hvort Marokkó eða Frakklandi í úrslitum HM næstkomandi sunnudag og sagði Messi eftirfarandi orð við fréttamenn eftir 3:0-sigur liðsins á Króatíu í gærkvöldi:

„Það gleður mig mikið að ljúka vegferð minni á heimsmeistaramótum í úrslitaleik, að spila minn síðasta leik í úrslitum. Það er mjög ánægjulegt.

Allt sem ég hef upplifað á þessu heimsmeistaramóti hefur verið tilfinningaþrungið, að sjá hversu mjög fólk hefur notið þess í Argentínu.

Það eru mörg ár frá þessu ári til næsta heimsmeistaramóts. Ég held að ég verði ekki fær um að taka þátt í því. Að enda á þessum nótum er frábært,“ sagði hinn 35 ára gamli Messi.

Í úrslitaleiknum mun hann leika sinn 26. leik á heimsmeistaramóti og verður þar með leikjahæsti leikmaður sögunnar á mótinu.

Í gærkvöldi jafnaði Messi met Þjóðverjans Lothar Matthäus, sem lék 25 leiki á heimsmeistaramótum á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert