Messi hitti handboltalandsliðið

Lionel Messi, í gulu vesti í miðjum hópi handboltamannanna frá …
Lionel Messi, í gulu vesti í miðjum hópi handboltamannanna frá Argentínu.

Landsliðsmenn Argentínu í handknattleik duttu heldur betur í lukkupottinn í dag þegar þeir brugðu sér til Barcelona til þess að freista þess að sjá knattspyrnulið Barcelona og landa sinn, Lionel Messi, á æfingu.

Argentínska liðið, sem er Suður-Ameríkumeistari, leikur á HM í handknattleik á Spáni og dvelur í Granollers í Katalóníu, um 25 kílómetra frá Barcelona. Þegar liðið brá sér yfir í höfuðborgina var markmiðið að reyna að fá að fylgjast með Barcelona og Messi æfa úr fjarlægð.

Messi kom handboltamönnunum hins vegar skemmtilega á óvart því hann fór beint til þeirra eftir æfinguna, stillti sér upp í myndatökur með hverjum og einum þeirra eftir því sem óskað var, og með liðinu í heild. Þá ræddi hann við leikmennina og spurði þá um gengi liðsins og hvenær þeir myndu spila. Einhverjir þeirra mun hafa sýnt honum tattú á líkama sínum þar sem gaf að líta hann sjálfan!

Svo er spurning hversu mikil hvatning þetta reynist fyrir Argentínumenn sem mæta Svartfjallalandi í fyrsta leik sínum á HM í Granollers á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert