Höfum ekki efni á vanmati

„Við eigum að vera menn til þess að ýta Svía leiknum frá okkur og mæta ferskir til leiks gegn Alsír," segir Kári Kristján Kristjánsson, línumaður íslenska landsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is, en landslið Íslands og Alsír mætast á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í dag. Flautað verður til leiks klukkan 16.

„Þetta er leikur sem við verðum að taka frumkvæði í á fyrsta stundarfjórðungnum. Alsírmenn geta verið hættulegir ef þeir komast á bragðið," segir Kári Kristján ennfremur og bætir við. „Ég ætla ekki að hefja Alsírliðið upp til skýanna. Þetta er lið sem við eigum að vera menn til þess að vinna."

Þess má geta að Alsír er ríkjandi Afríkumeistari í handknattleik karla. Liðið steinlá fyrir Egyptum, 34:20, í fyrsta leik sínum á HM rétt áður en íslenska liðið tapaði illa fyrir Svíum, 24:16.

„Við höfum ekki efni á vanmati," segir Aron Pálmarsson. „Ég lofa því að það verður ekki sama íslenska liðið sem mætir til leiks gegn Alsír og lék við Svía," segir Aron.

Nánar er rætt við Aron og Kára Kristján á meðfylgjandi myndskeiði.

Leikur Íslands og Alsír hefst klukkan 16 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert