„Mikið djöfull er ég svekktur“

Arnór Atlason fagnar einu af mörkum sínum í dag.
Arnór Atlason fagnar einu af mörkum sínum í dag. AFP

„Mér fannst við skilja allt eftir inni á vellinum og þess vegna er það enn sárara að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik,“ sagði Arnór Atlason við mbl.is eftir ósigurinn gegn Slóvenum á HM í handknattleik í dag.

Arnór átti flotta innkomu í sóknarleikinn og stjórnaði honum vel og skoraði dýrmæt mörk.

„Það var gríðarleg barátta í okkur. Við vorum fljótir að vinna upp forskot þeirra í seinni hálfleik og eftir það var leikurinn í járnum. Ég er svekktur út í sjálfan mig að hafa tapað boltanum á ögurstundu undir lokin en svona er þetta bara stundum. Slóvenarnir voru klókari en við þegar mest á reyndi. Það vantaði meira flot á boltann í fyrri hálfleik en við leystum það betur í þeim síðari. Slóvenar eru með frábært lið en mikið djöfull er ég svekktur,“ sagði Arnór.

„Erfiður andstæðingur bíður okkar á morgun. Við þurfum að hreinsa þennan leik út úr huganum sem fyrst og við megum ekki hengja haus. Það er kúnst en það áskorun fyrir þessa nýju stráka að fá að kynnast þessu. Það er innan við sólarhringur í þennan mikilvæga leik á móti Túnis og verðum að mæta með kassann úti og hausinn upp,“ sagði Arnór Atlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert