Þurfum að stíga skrefið til fullnustu

Rúnar Kárason að skora eitt af sex mörkum sínum í …
Rúnar Kárason að skora eitt af sex mörkum sínum í dag. AFP

„Mér fannst við spila hrikalega flottan leik og maður er vitaskuld sár og svekktur að það skyldi ekki færa okkur stig,“ sagði Rúnar Kárason við mbl.is eftir ósigurinn gegn Slóvenum á HM í handknattleik í Metz í dag.

„Við áttum svo sannarlega skilið að fá eitthvað út úr leiknum. En það þýðir ekkert að væla yfir þessu. Við erum klárlega að gera hlutina að miklu leyti rétt en nú þurfum að stíga skrefið til fullnustu á morgun,“ sagði Rúnar sem átti fínan leik og skoraði 6 mörk. „Ég var óheppinn í fyrstu tveimur skotum mínum en hélt aganum og í seinni hálfleik fór þetta að detta inn hjá mér.“

„Við vorum svolítið lengi að læra inn á vörn Slóvenanna en þetta gekk miklu betur í seinni hálfleiknum og við þurfum að taka allt það besta úr þessum leik og koma með það í leikinn við Túnis á morgun. Við verðum að vinna þann leik. Túnis er með gott lið og með marga góða leikmenn í sínum röðum. Við verðum að þjappa okkur saman því við höfum ekki áhuga á því að fara í frí snemma í næstu viku,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert