„Allir reyndu að gera sitt besta“

Arnór Atlason.
Arnór Atlason. AFP

„Ég er hundfúll yfir því að við séum dottnir úr leik. Það eru mestu vonbrigðin eftir að hafa spilað svona góðan fyrri hálfleik að geta ekki fylgt því eftir í seinni hálfleik og veitt þeim meiri keppni,“ sagði Arnór Atlason við mbl.is eftir tap Íslendinga gegn Frökkum í 16-liða úrslitunum á HM í handknattleik í kvöld.

„Frakkarnir skoruðu að vild í byrjun seinni hálfleiks og það er vont að missa svona frábært lið einhverjum fjórum mörkum fram úr sér. Mér fannst hins vegar frábært að við skyldum ekki brotna. Við náðum að koma okkur aftur inn í leikinn og ég get lofað því að það voru sextán leikmenn, þjálfarar og allt starfsliðið sem gerði allt sitt besta,“ sagði Arnór sem skoraði tvö mörk í leiknum.

„Mér fannst við eiga frábæra kafla í öllum leikjunum sem við spiluðum á þessu móti og stóðum í frábærum liðum. Okkur skorti herslumuninn. Aðeins fleiri stig í riðlinum hefðu skilað okkur auðveldari mótherja en þrátt fyrir mikla útskiptingu á hópnum þar sem margir eru horfnir á braut og margir nýir menn komnir þá erum við samt að ná eins langt á þessu móti og á tveimur síðustu mótum á HM.

Það hefur verið stígandi í liðinu en ég held að allir geti verið sammála um að það tekur tíma að ná upp á það stig sem við vorum á eftir svona miklar breytingar. Við höfum samt allir trú á að við getum það og við þurfum að taka okkar góðu spilkafla út úr þessu móti,“ sagði Arnór Atlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert