„Var svolítið sjokk“

Bjarki Már Gunnarsson ásamt Björgvini Páli Gústavssyni og Arnóri Þór …
Bjarki Már Gunnarsson ásamt Björgvini Páli Gústavssyni og Arnóri Þór Gunnarssyni. AFP

Varnarjaxlinn Bjarki Már Gunnarsson hefur komið sterkur inn í íslenska landsliðið á HM frá því hann var kallaður inn úr kuldanum.

Bjarki Már var utan hóps í fyrsta leiknum gegn Spánverjum en var svo kallaður inn í hópinn fyrir leikinn á móti Slóvenum og hefur leikið stórt hlutverk í varnarleik liðsins í síðustu þremur leikjunum.

Það verður í nógu að snúast hjá Bjarka Má og félögum hans í íslensku vörninni í þegar þeir reyna að berja á heimsmeisturum Frakka en Ísland og Frakkland eigast við í 16-liða úrslitunum á HM í Lille í dag.

„Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir okkur en að sama skapi er mikil tilhlökkun hjá okkur. Það verður varla skemmtilegra að spila á móti þessum stórstjörnum og ég tala nú ekki um í þeirri umgjörð sem verður á leiknum,“ sagði Bjarki Már við mbl.is.

Höfum engu að tapa

Hvar möguleikar íslenska liðsins felast í leiknum segir Bjarki: „Við verðum að vera mjög þéttir fyrir í vörninni og reyna eftir fremsta megni að keyra á þá með hraðaupphlaupum. Það er mikil pressa á Frökkunum en við höfum á móti engu að tapa. Ég held að Frakkarnir séu það miklir atvinumenn í sér að þeir vanmeta engan andstæðing og hvað þá þegar það er komið í sextán liða úrslit á HM,“ sagði Bjarki Már.

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hrósaði Bjarka Má í samtali við mbl.is á dögunum og sagði að það hafi kannski stappað stálinu í Bjarka að hann hafi ekki verið valinn í leikmannahópinn í fyrsta leik. Hvað segir Bjarki við þessu?

„Ég hef gríðarlegan metnað fyrir landsliðinu og ég neita því ekki að það var svolítið sjokk að vera settur út í kuldann. Þegar ég fékk tækifærið aftur þá reyndi ég að nýta það sem allra best. Ég legg mig alltaf hundrað prósent fram í leikjum með landsliðinu. Geir er gamall varnarrefur og þekkir varnarleikinn út og inn. Mér hefur fundist varnarleikurinn vera bara góður heilt yfir hjá okkur. Geir er duglegur að segja okkur til,“ sagði Bjarki Már.

Bjarki Már, sem er 28 ára gamall, leikur með þýska B-deildarliðinu Aue. Samningur hans við liðið rennur út eftir tímabilið og segir hann óvíst hvað taki við hjá sér eftir það. „Það eru einhverjar þreifingar í gangi en ekkert fast í hendi enn þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert