„Það þarf að taka þessu líka“

Ingvar Þór Jónsson, Pétur Maack og Úlfar Jón Andrésson í …
Ingvar Þór Jónsson, Pétur Maack og Úlfar Jón Andrésson í varnarbaráttu í leiknum gegn Belgíu í Galati í dag. Ljósmynd/Sorin Pana

„Við vorum ekki að berjast eins og við höfum gert í undanförnum leikjum. Það var eins og við værum þreyttir á köflum eða hikandi,“ sagði Úlfar Jón Andrésson, annar aðstoðarfyrirliði Íslands í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir stóran skell liðsins sem tapaði 9:3 fyrir Belgíu á HM í Rúmeníu.

„Það þarf að taka þessu líka. Þetta er leikur sem við höfum alveg eins getað unnið, en það var ekki sama barátta. Við komumst aðeins inn í leikinn aftur, en þegar þeir skora ná þeir yfirhöndinni aftur. Það bara sló okkur út af laginu, því miður, og við komum ekki til baka eftir það,“ sagði Úlfar.

Skellurinn er ekki síður sár þar sem Ísland sýndi hreint glimrandi frammistöðu í gær og vann heimamenn 2:0, en Rúmenía er talið langsterkasta lið riðilsins.

„Já, en öll liðin í þessum riðli geta unnið hvort annað og við vitum það. Þessi leikur er búinn, við undirbúum okkur bara vel fyrir næsta leik og tökum hann enda það eina sem við getum gert,“ sagði Úlfar.

Ísland á ekki leik á morgun en spilar svo sinn síðasta leik gegn Serbíu á þessu móti á sunnudag, sem gæti orðið úrslitaleikur um verðlaunasæti.

„Við ætlum núna að hvíla okkur vel, taka æfingu á morgun en taka daginn annars rólega og koma klára þetta með sæmd,“ sagði Úlfar Jón Andrésson í samtali við mbl.is í Galati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert